top of page

Viðeyjar- eða Sundabraut?



Á hverfafundi á Kjalarnesi kom óvænt fram að allir frambjóðendur borgarmeirihlutaflokkana voru svo andsnúnir Viðeyjarleið Ábyrgrar framtíðar (xY) , að þeir vildu ekki einu sinni að hún yrði skoðuð. Fulltrúi Pírata taldi þetta t.d. eina verstu hugmynd sem hún hafði heyrt og fulltrúi Viðreisnar hélt að Viðeyjarleiðin væri bara sett fram til að vekja athygli á „litlu framboði“!

Þessi afstaða er hreint ótrúleg og sýnir lítinn skilning borgarfulltrúana á stöðu Sundabrautarverkefnisins eða hversu stutt sú hönnun er á veg komin. Til marks um það var nýverið verið að fresta Sundabrautarverkefninu til 2026 og miðað við gefna reynslu þá má alveg búast við að frekari frestanir verði tilkynntar síðar.

Önnur ástæða er líkast til vanþekking borgarfulltrúana á hvað í raun felst í Viðeyjarleiðinni, enda er hugmyndin ný. Ég tók því saman helstu punkta sem máli skipta og ættu að skýra af hverju kjósendur ættu að láta sig þetta mál varða.


Lýsing á framkvæmdunum

Sundabraut er í dag hugsuð sem brúarlausn sem fer út syðst í Sundahöfn yfir Klettsvíkina til Gufuness (í fyrri áfanga) og í seinni áfanga verður haldið áfram út á Geldinganes, Álfsnes og svo yfir Kollafjörðinn og inn á Vesturlandsveg. Allar þveranirnar eru brúarframkvæmdir. (Sjá rauða og appelsínugul leið á mynd.)

Viðeyjarleið er meiri gangnaframkvæmd. Laugarnesið er tengt Viðey um botngöng. Þaðan er svo gerð tengin suður til Gufunes með landfyllingu á miklum grynningum sem þar eru. Einnig verður samtímis byggð hefðbundin jarðgangnatenging beint norður til Brimness á Kjalarnesi og inn á Vesturlandsveg og er lengd ganganna svipuð og Hvalfjarðargöngin. (Sjá bláa leið á mynd.)


Tvöfalt meiri stytting

Mikilvægasti munur á Viðeyjarleiðinni og Sundabrautinni er að Viðeyjarleiðin býr til tvöfalt meiri styttingu en Sundabrautin. 16 km stytting myndi koma með Viðeyjarleiðinni strax eftir 1. áfanga, á meðan 9 km stytting kæmi með Sundabrautinni eftir 2. áfanga.


Hraðbraut eða stofnvegur

Viðeyjarleiðin er hugsuð sem hraðbraut aðeins með ein gatnamót á leiðinni í bæinn, í Viðey. Sundabraut er stofnvegur til að safna umferð á sig. Slíkar tengingar munu alltaf hægja á umferð og búa til tafir á leiðinni. Ferðahraðinn á Viðeyjarleið ætti því að vera nokkru jafnari og hraðari.


Hagkvæmari áfangaskipting

Gallin við brúarlausn, er að erfitt getur verið að byggja hálfa brú og brýrnar þarf að hanna fyrir framtíðarþróun umferðar. Þetta þýðir að það þarf að yfirhanna brýrnar verulega. Slíkt hækkar stofnkostnaðinn verulega og ef of mikið er skorið við nögl, gætu brýrnar verið of afkastalitlar þegar umferð fer að vaxa seinna meir. Af þessum sökum er áfangaskipting þvers [HV1] á Sundabrautarlausnina með 1. áfanga sem þverun Klettsvíkur mundi koma langt á undan seinni áfanga tengingunni. Fyrir vikið eru mun meiri líkur á að Sundabrautin tefjist.

Viðeyjarleið er með mun hagkvæmari áfangaskiptingu. Jarðgangnahluti Viðeyjarleiðarinnar býður upp á áfangaskiptingu þar sem bara önnur af tveimur göngum væru gerð fyrst og seinni göngin kæmu síðar samhliða því að umferð vex. Þetta þýðir að styttingin kemur strax og tekjurnar koma strax. Eini hluti Viðeyjarleiðar sem þarf að yfirhanna fyrir framtíðarumferð er botnstokkurinn.


Umferðarvandamálin á Sæbraut

Viðeyjarleið býr til hjáleið fram hjá versta umferðaravandamálskafla Sæbrautar. Vegbúturinn í Viðey er samhliða Sæbraut og nánast eins og önnur Sæbraut. Sundabraut kemur inn á miðjan umferðartappakafla Sæbrautar, og getur fyrir vikið ekki orðið hjáleið. Þessi kafli á Sæbraut getur verið mjög leiðilegur á annatímum og 2 mínútna akstur getur breyst í 20 mínútna akstur, þegar aðstæður eru slæmar. Fara þarf í miklar framkvæmdir á Sæbraut til að laga þetta ef farið er í Sundabraut, en mögulega litlar sem engar ef Viðeyjarleið verður farin.


Sundahöfn

Einn stærsti gallinn við núverandi legu Sundabrautar er að hún truflar stækkun Sundahafnar til suðurs og skemmir Sundahöfn. Gríðarlegir hagsmunir gætu verið í húfi og mögulegt er að hönnun Sundabrautar verði öll endurhugsuð og valið að fara í botngangalausn eins og lagt er til í Viðeyjarleiðinni, því slík lausn hefur ekki áhrif á höfnina.

Viðeyjarleið er botngangalausn sem er aldargömul tækni og þekkist um allan heim að nota. Þessi aðferð hefur hins vegar ekki enn verið notuð á Íslandi. Byggður yrði rampur ofan í sjóinn fyrir framan Skarfagarð, sem mundi enda í steyptum stokk sem komið er fyrir í skurð sem grafinn er undir hafsbotninn. Annar rampur tæki svo við í eyjunni þar sem umferðin færi í land. Kostir þessarar leiðar auk þess að hafa ekki áhrif á skipaumferð, er að hún er mjög plássparandi og aðreinar stuttar miðað við hefðbundin göng. Einnig er auðvelt að hafa hljólastíg í slíkum göngum, því þau eru steypt og svo sökkt þegar þeim er komið fyrir. Slíkt opnar leiðir fyrir fleiri samgöngumáta en bara bílinn.


Viðey

Einn stærsti kostur Viðeyjarleiðarinnar er svo að tengja eyjuna betur Reykvíkingum. Saga Reykjavíkur og Íslands er samofin eyjunni og myndi slík tenging lyfta þeirri sögu upp á hærra plan en nokkru sinni fyrr.

Hvað sem síðar verður ákveðið að gera við eyjuna sem er um 160 ha (mögulega 200 með landfyllingu), þá mun opnast mikið og einstakt útivistarsvæði fyrir alla Reykvíkinga um leið og búið er að tengja. Slíkt getur verið ómetanlegt fyrir borgarbúa.


Fjármögnun og verktími

Gríðarmikilvægt er að umferðarverkefni séu eins hagkvæm og mögulegt er, því ef hægt er að fjármagna slík verkefni af notendum einum saman, þarf enga aðkomu ríkisins og verkefnin geta byrjað strax. Tvöfalt meiri stytting, þýðir tvöfalt meiri tekjur af veggjöldum. Viðeyjarleiðin líkist um margt Hvalfjarðargöngum sem var eitt hagkvæmasta samgönguverkefni Íslandssögunnar sem skilað fjárfestum miklum gróða þrátt fyrir að göngin væru afhent 20 árum síðar. Viðeyjarleið er því borðleggjandi verkefni sem lítil áhætta er að fara í. Þetta þýðir að fjármögnun ætti að takast hratt.

Sundabrautin er mun flóknara verkefni þar sem líklega þarf að vinna mun meira í fjármögnuninni þar sem það er ekki eins hagkvæmt. Slíkt tekur tíma og mikið af sviknum loforðum.


Hönnun Sundabrautar stutt á veg komin

Margir telja að Sundabrautin sé langt komin í hönnun, enda hefur þetta verkefni verið í umræðunni í næstum hálfa öld og alltaf við það að koma. Svo er þó ekki, því útfærslum Sundabrautarinnar hefur flestum verið hent í ruslið. Dæmi um eina slíka er Eyjaleið, sem var hagkvæmasta útfærsla Sundabrautar og var þessi útfærsla efniviður í lokaverkefni oddvita Ábyrgrar framtíðar í Byggingarverkfræði fyrir næstum tveim áratugum síðan. Öll sú vinna og annarra sem hönnuðu slíkar útfærslur er töpuð í dag, því þessi leið mun aldrei verða farin eftir að ákveðið var að setja íbúðir ofan á veglínuna.

Þegar þetta var gert breyttist allt og byrja þurfti upp á nýtt. Mun dýrari og stærri og óhagkvæmari tengingar urðu nauðsynlegar. Við þá endurskoðun hefði verið eðlilegt að endurskoða skilgreiningu verkefnisins og kanna hvort að víðari skilgreining gæti skilað betri niðurstöðu. Það var ekki gert. Niðurstaðan var að skoðuð var t.d. gangnalausn frá Gufunesi á Laugarnes með heildarvegalengd gangna upp á u.þ.b. 12 km. Þessi ótrúlega dýra framkvæmd (fyrir svona litla tengingu) var síðan borin saman við brúarhugmynd sem kemur til með að skemma Sundahöfn. Báðir kostir voru því slæmir. Niðurstaðan varð að fara frekar leiðina sem skemmir höfnina.

Slíkt getur vart talist góður kostur þegar fram í sækir, og því er ekki ólíklegt að þessi hugmynd verði líka endurskoðuð og lausn með botngöngum (eins og við leggjum til í Viðeyjarleiðinni), skoðuð betur.

Annað vandamál við Sundabrautina er að hún kemur inn á Sæbrautina við kafla þar sem mikið er um umferðartafir á annatímum, en leiðir ekki umferðina fram hjá þeim. Til að leysa þetta þarf líklega aðra framkvæmd. Í dag er fyrirhugaður rándýr Sæbrautarstokkur við landtenginguna en hugsanlega þarf meira til ef duga skal. Annars gætu menn orðið fastir á brúnni.

Úrlausn allra þessara vandamála tekur tíma, og vegna mikils kostnaðar, flækjustigs og fleira má reikna með að baráttan um að fá Sundabraut muni vara mörg ár í viðbót jafnvel áratugi, og ýmsar breytingar verða á hönnun meðan á því stendur.


Að lokum

Öll vandamál Sundabrautarinn myndu leysast með Viðeyjarleið af sjálfu sér. Það yrði því mikill missir ef slík lausn sem blasir við sé ekki einu sinni skoðuð. Góðar lausnir eru þess eðlis að þær vaxa hratt og festast ekki í kerfinu eins og Sundabraut hefur gert og mun líklegra er að slíkar hugmyndir komi til framkvæmda strax því auðvelt er að fjármagna þær.

Ef fólk vill sjá raunverulegar breytingar þar sem fleiri leiðir eins og Viðeyjarleið eru líka skoðuð þá er bara eitt mögulegt val í komandi kosningum. x við Y fyrir alvöru lausnir.

bottom of page